Síðasta kvöldmáltíðin

Bæn

Guð fyrirheitanna, þú gerðir sáttmála við fólk þitt sem þú endurnýjaðir við síðustu

kvöldmáltíð Jesú. Endurnýja sáttmála þinn við okkur daglega svo að við meigum

læra að lifa í ljósi þínu og friði. Við biðjum þess í Jesú nafni. Amen Þú sem lifir og ríkir

með Guði föður í einingu heilags anda, einn sannur Guð um aldir alda.

Hugleiðing

Þetta kvöld er eitt af því mikilvægasta í kirkjunni, því það er svo margt sem

gerist þá. Jesús veit að hann mun deyja á krossi og þess vegna notar hann

þessa síðustu máltíð til að undirbúa samferðafólk sitt, lærisveina sína og þau

sem höfðu fylgt honum næstum við hvert fótmál síðustu árin. Vini sína.

Það er eiginlega ógerningur að tala um allt sem gerist þetta kvöld. Þannig að

ég ætla að tala um tvennt, tvö atriði sem við byggjum kirkju okkar á.

Það fyrsta er fótaþvotturinn. Þetta er nefnilega kvöldið sem Jesús þvær fætur

lærisveina sinna og gefur okkur þannig eftirdæmi, dæmi um það hvernig

þjónusta okkar sem ætlum að fylgja honum skal vera.

Það sem Jesús var að gera var þjónusta sem ekki einu sinni allir þjónar

gerðu, aðeins þeir lægst settu. Fætur fólks á þessum tíma voru ofast mjög

óhreinir af alls kyns mold og ryki þar sem fólk gekk um í sandölum. Það að

beygja sig svona niður er líka merki um eftirgjöf, að vera fyrir neðan fætur

einhvers var merki um ósigur í bardaga, algjöra niðurlægingu. Þetta er

nefnilega sterkara tákn en við gerum okkur grein fyrir af tákheimur þessa tíma

var meira tengdur stríði en við þekkjum í dag. Styttur og myndir af

stríðshetjum voru þannig að sá sem sigraði hafði hinn sigraða fyrir neðan

fætur sínar.

Jesús er að sýna þeim að hann er ekki þannig leiðtogi, hann er ekki sá sem

lætur aðra beygja sig undir vilja sinn, heldur beygir hann sig, auðmýkir sig.

Þannig að Pétur vildi einfaldlega ekki að Jesús myndi auðmýkja sig svona.

Hann var jú meistari þeirra, Herra, rabbíni, kennari og sonur Guðs.

En Jesús er að gefur þeim eftirdæmi, hann segir þeim að gera eins og hann

hefur gert. Að sinna þjónustu hver sem hún er. Þetta dæmi er gjarnan notað

þegar talað er um kærleiksþjónustu kirkjunnar. Kirkjunnar þjónum ber að

þjóna náunganum í kærleika. Það er þess vegna sem kirkjur um allan heim

hafa stofnað sjúkrahús og skóla, sem ríki og sveitarfélög hafa svo seinna

tekið við. þess vegna sem hjálparstarf kirkjunnar í gegnum act alliance er um

allan heim.

Þá komum við að hinu atriðinu kvöldmáltíðinni.

Jesús borðaði oft með fólki, alls konar fólki. Guðspjöllin eru full af máltíðum. Það er

eiginlega eins og þau séu alltaf að borða saman. Brauð og fiska. Grillaðan fisk á

ströndinni. Það eru líka veislur eins og brúðkaupið í Kana. Og Jesús gerir líka í því að

borða með fólki sem var á jaðri samfélagsins. útlendingum, holtsveikum,

tollheimtumönnum.

Guðspjöllin eru full af alls konar fólki, fólki sem hefur brotið af sér á ýmsa vegu.

Brotið fólk. Brotið brauð. Brotinn líkami. Þannig er saga mannkyns og þannig er saga

kirkjunnar. Við megum og verðum að horfast í augu við það. En einmitt vegna þess,

að kirkjan er brotinn líkami þörfnumst við þess svo sárlega að þiggja líkama Krists og

blóð, endurreisnarkraftinn sem hefur okkur upp yfir allt þetta brotna og gerir okkur

heil. Við hættum ekki að vera brotlegar manneskjur, brothættar manneskjur.

Veruleiki okkar er svo viðkvæmur. En einmitt í þessum brotleika öllum, með því að

viðurkenna hann, horfast í augu við hann, játa brot okkar, þá verðum við heil. Líkami

Jesú með sárum sínum. Líkami Jesú með sárum í gegn um lófa, sárum í gegn um

ristar, síðusárinu, líkami Jesú sem er sár og særður og brotinn okkar vegna, líkami

Jesú gerir okkur heil.

Í lok þessa kvölds var Jesús tekin höndum og á föstudaginn langa dó hann á krossi.

Fótaþvotturinn og síðasta kvöldmáltíðinn bendir okkur á það hvernig við

eigum að túlka krossdauðann. Hann er niðurlægður, hann er fórnarlambið, en þannig sigrar hann dauðann. Með því að lægja sjálfan sig, með því að taka ámóti niðurlægingunni, pínu og dauða.

Þess vegna segir Jesús, ef ég þvæ þér ekki áttu enga samleið með mér. Við

eigum að taka á móti fórnargjöfinni, þeirri gjöf sem hann gaf okkur þegar hann

dó á krossi fyrir okkur.

Þyggja gjafir hans, brauð og vín og trúa af öllum mætti á það að okkur sé

fyrirgefið þrátt fyrir það hve ófullkomnar og brotnar manneskjur við erum.

Dýrð sé Guði, móður og syni og heilögum anda.

Amen.

Verkefni

Láta brauðhleif ganga á milli og allir þátttakendur brjóta bita af og borða saman.