Yfirskrift landsmóts 2023 er Fögnum fjölbreytileikanum
Síðastliðin ár hefur ÆSKÞ átt gott og farsælt samstarf við Hjálparstarf kirkjunnar í tengslum við landsmót. Unglingarnir á landsmóti hafa látið gott af sér leiða og safnað peningum til góðgerðarmála. Ávöxtur þessa starfs er dýrmætur og það sést best þegar við lítum til baka og sjáum það sem landsmót hefur gefið af sér.
2010 – 75 þrælabörn frelsuð úr skuldaánauð á Indlandi
2011 – Uppbygging á skóla/handavinnustofum sem eyðilögðust í náttúruhamförunum í Japan 2011
2012 – Safnað fyrir hreinu vatni og brunnum í Malaví (safnað var fyrir 2 brunnum, 20 hænum og 18 geitum)
2013 – Safnað fyrir framtíðarsjóð Hjálparstarfs Kirkjunnar. 746.367 kr safnað fyrir fátæk ungmenni á Íslandi.
2014 – Safnað fyrir alnæmisverkefni Hjálparstarfs kirkjunnar. 314.361 kr safnað í alnæmisverkefnið.
2015 – Safnað fyrir Pollasjóð og Hemmasjóð Hjálparstarfs kirkjunnar. 500.000 kr safnað á mótinu. Auk þess safnaði ÆSKA á Austurlandi 250.000 kr í happdrætti fyrir verkefnið. Því söfnuðust alls 750.000 kr í verkefnið.
2016 – Flóttamenn og Fjölmenning: Safnað verður fyrir innan sem og utanlands aðstoð fyrir flóttafólk.
2017 – (ó)nýtt landsmót: Við horfðum til sköpunarverksins og hvað við getum gert til að varðveita það. Við sem kristnir einstaklingar berum ábyrgð á því að varðveita og viðhalda sköpun Guðs og það er skylda okkar að gera allt það sem í okkar valdi er til að skila jörðinni í betra ásigkomulagi en við tókum við henni. Þátttakendur seldu Gjöf sem gefur, gjafabréf Hjálparstarfsins.
2018 – Leikandi landsmót: Í ár horfum við í eigin barm, hver erum við og hvað skiptir okkur máli og hvernig eflum við samskipti okkar við náungan. Margir unglingar glíma við félagslega einangrun jafnvel þó svo að framboð af afþreyingu hafi sjaldan verið meira. Margir sáu tölvur og síma sem lausn, með því að sökkva sér inn í þann heim þarf ekki að takast á við þau fjölmörgu og flóknu verkefni sem félagsleg samskipti eru. Yfirskrift mótsins í ár minnir okkur á lífið og hvað það skiptir miklu máli að geta leikið sér, fjársjóðinn sem fellst í því að vera Guðs barn.
2019 – Skapandi Landsdmót: Í ár horfum til þess sem við getum gert, kraftinn sem býr innra með okkur og æfum okkur í að virkja hæfileikana okkar. Við munum skoða og þroska okkur sjálf í gegnum leiki, verkefni og listir. Hver og einn þátttakandi mun fá tækifæri til að finna hvað hreyfir við sköpunar gleðinni. Við viljum minna á að það er svo margt sem við getum gert sem veitir okkur gleði og hamingju og á þessu móti munum við fagna sköpuninni og fá að skapa sjálf. Þegar við búum eitthvað til þá erum við á sama tíma að opna okkur við þurfum að treysta okkur sjálfum og þeim sem eru í kringum okkur. Að vinna í hóp að skapandi verkefni reynir á félagsleg samskipti og byggir traust.
2020 – Lifandi Landsmót:
Árið 2020 hefur boðið uppá ýmsar áskoranir fyrir okkur öll, við höfum þurft að tileinka okkur nýja siði og þekkingu auk þess að kynnast því hvernig er að upplifa vá í nærumhverfinu. Á mótinu í ár ætlum við að fagna lífinu og hittast vera saman, en ekki bara „live“ á netinu. Við munum leggja áherslu á að vera til staðar fyrir hvort annað og bjóða upp á fjölbreyttar samverustundir þar sem allir geta vonandi fundið eitthvað við sitt hæfi.
- Tengsl við hjálparstarfið
- Samhliða undirbúningi fyrir landsmót langar okkur að hvetja æskulýðsfélögin til þess að taka þátt í að selja ,,Gjöf sem gefur” gjafabréf hjálparstarfsins. Við viljum sérstaklega beina því til æskulýðsfélagana að selja eftirfarandi bréf og skrá hjá sér fjölda seldra bréfa:
2500 tré
2500 tré halda vatni í jarðvegi, gefa ávexti og skugga fyrir matjurtir.
Tré skapa skugga fyrir fólk og nytjajurtir. Þau laða að gagnleg skordýr, draga til sín vatn og varna foki og að jarðvegi skoli burt í miklum rigningum. Ávaxtatré eru búhnykkur bæði til þess að gera fæði fjölskyldunnar fjölbreyttara og til þess að afla tekna með sölu. Fyrir andvirði þessa gjafabréfs má fá 2500 græðlinga – gjöf sem vex og vex!
http://gjofsemgefur.is/?prodid=50
Verð 2500kr
Til eru fræ …
… söng Haukur Morthens í eina tíð. En svo fræ verði að góðri uppskeru þarf að velja hentugar tegundir til ræktunar, undirbúa jarðveginn og hafa vatn til áveitu. Þegar uppskeran er komin í hús er svo nauðsynlegt að kunna að geyma hana rétt. Fyrir andvirði þessa gjafabréfs fá sjálfsþurftarbændur í Eþíópíu þurrkþolin maís- og hirsifræ fyrir hrjóstrugan jarðveginn. Með víxlræktun eykst frjósemi moldarinnar og fæða fjölskyldunnar verður fjölbreyttari og næringarríkari. Ef vel gengur er jafnvel hægt að selja hluta af uppskerunni á markaðnum.
Verð: 2.500
Námskeið í umhverfisvernd
Fræðsla um vistvæna nýtingu umhverfisins.
Fátækir eiga fárra kosta völ um lífsbjörg. Þeir reiða sig á eldivið til hitunar og matseldar –safna honum gegndarlaust og þurfa sífellt að leita lengra eftir því sem gengur á landið og það breytist í auðn. Kolagerð til tekjuöflunar stuðlar að því sama. Fátækir eiga ekki fyrir nýjungum í ræktun. Jarðvegur er þrautpíndur. Skólplagnir eru opnar, kamrar fáir og rusl um allt. Með fræðslu og oft einföldum aðgerðum má fá fólk til þess að lifa í meiri sátt við umhverfi sitt. Með því að planta trjám við vatnsból og árfarvegi, opna leiðir til tekjuöflunar sem ekki ganga á umhverfið, nýta tað af skepnuhaldi til áburðar, víxla uppskerum og reisa kamra má ná langt. Umhverfisnámskeið eru vitundarvakning sem verður hvati að breytingum. Þetta gjafabréf er ávísun á nýja hugsun og betri framtíð.
Verð: 6.000
http://gjofsemgefur.is/?prodid=49