Grípa í fingurinn
Þátttakendur standa í hring, leggja hægri vísifingur í vinstri hönd þess sem er við hliðina á (hafa vistri hönd opna til að taka á móti fingri þess sem er á vinstri hönd.) Þegar sagt er 3 eiga þátttakendur að reyna að grípa utanum fingurinn sem liggur í vinstri lófa og um leið reyna að koma í veg fyrir að sá sem er á hægri hönd nái að grípa um fingurinn.
Hnúturinn
Þátttakendur standa í hring, öxl við öxl. Setja hendurnar inn í hringinn, finna aðra hönd til að grípa utanum og láta grípa utanum hina. Markmiðið er að reyna að losa hnútinn án þess að sleppa höndum.
Sannleikur og lygi
Skrifa niður á blað tvennt sem satt er um sjálfan sig og eitt sem er lygi. Hinir eiga að giska á hvað af þessu var lygi.
Öskur-leikur
Þátttakendur horfa niður, þegar sagt er “nú” eiga þeir að líta upp og reyna að líta í augun á einhverjum öðrum. Ef þeir ná augnsambandi við annan aðila, eiga þeir báðir að öskra og eru þar með úr leik.
Ha-ha leikur
Þátttakendur leggjast á gólfið með höfuðið á maga næstu manneskju. Fyrsta manneskjan segir ha, sú næsta ha-ha, sú þriðja ha-ha-ha og svo framvegis. Augun eiga að vera lokuð, bannað er að hlægja. Markmiðið að komast eins langt og hægt er með ha-in án þess að nokkur fari að hlægja, má reyna að vera fyndinn.
Handapat
Þáttakendur sitja á gólfinu og hver og einn leggur hægri hönd yfir vinstri hönd þess sem er við hliðina (ekki samt ofaná), Svo byrjar einn að klappa hægri höndinni og sá sem er á hægra megin klappar þá næstu hönd og svo framvegis, það er bannað að hika, þegar þátttakendur hafa náð þessu má kenna þeim tvöfalt klapp en við það fer hringurinn í öfuga átt, þ.e. til vinstri. Sá sem hikar er úr en þó bara sú hönd sem hikaði.
Telja upphátt
Hópurinn situr í hring, markmiðið er að hópurinn nái að telja upp á tíu, einn í einu nefnir tölu, ef tveir nefna tölu á sama tíma þarf að byrja upp á nýtt, minnsta hik er nóg til að það þurfi að byrja upp á nýtt.
Prik á putta
Þátttakendur rétta fram hendur og kústskaft er sett á vísifingur þeirra. Kústskaftið er vandamál og þau eiga að leysa vandamálið, en gallinn er að vandamálið vex bara og stækkar, þau þurfa að vinna saman til þess að leysa vandann og leggja kústskaftið á gólfið. Til þess þarf jafnvel að fara á hnén.