Áður en haldið er á Landsmót með lítinn eða stóran hóp er margt sem þarf að hafa í huga. Allar upplýsingar fyrir mótið er að finna á vefsíðunni og er mikilvægt að leiðtogar kynni sér þær vel. Hér höfum við tekið saman algengar spurningar fyrir þá sem eru að fara á Landsmót og svör við þeim.
Allar rútur af höfuðborgarsvæðinu fara frá Digraneskirkju í Kópavogi en tímasetningar verða birtar síðar.
Upplýsingar um brottfarir annars staðar á landinu fást hjá viðkomandi leiðtogum.
Hæfileikakeppnin fer fram seinni partinn á laugardeginum. Eitt atriði er leyft frá hverju félagi og má það ekki vera lengra en 3 mínútur. Atriði sem eru lengri en 3 mínútur eru dregin niður í stigum. Skráningu í hæfileikakeppni lýkur viku fyrir mót á vefnum og þarf að senda myndband af atriðinu við skráningu.
Dómnefnd velur þrjú bestu atriðinu og verða verðlaun veitt á kvöldvöku á laugardagskvöldi.
Smelltu hér til þess að fá nánari upplýsingar um hæfileikakeppnina.
Þátttakendur skrá sig hjá sínum leiðtoga. Leiðtogar þurfa svo að skrá bæði þátttakendur og leiðtoga inn í Skrám á vefslóðinniskraning.aeskth.is. Síðasti skráningardagur er 30. september 2016.
Við skráningu þarf að koma fram: Kennitala, nafn, símanúmer foreldris, farsími þátttakenda og ofnæmi (ef eitthvað er). Leiðtogar þurfa einnig að skrá netfang.
Mótsgjald er 17.900 kr á mann fyrir aðildarfélög ÆSKÞ en 18.900 kr fyrir önnur félög. Þátttakendur greiða staðfestingargjald og afganginn af mótsgjaldinu til sinna leiðtoga sem sjá um að koma greiðslum til ÆSKÞ
Við skráningu þarf að greiða 7.000 kr óafturkræft staðfestingargjald á mann. Gjaldið er greitt með rafrænni kröfu sem gefin er út á kirkju þátttakenda. Afgangur af mótsgjald er greiddur með rafrænni kröfu strax að móti loknu.
Innifalið í mótsgjaldi eru rútuferðir innanlands, matur, gisting og aðgangur að dagskrá mótsins.
Þátttakendur og leiðtogar þurfa að hafa með sér dýnur. Athugið að tvíbreiðar vindsængur eru ekki leyfilegar nema að tveir sofi á vindsænginni. Vegna fjölda skráninga er nauðsynlegt að nýta plássið vel. Raðað er í stofur eftir hópum og gista piltar og stúlkur í sitt hvorri stofunni.
Þegar haldið er í ferðalag sem þetta þá er nauðsynlegt að hafa réttan farangur. Því viljum við benda ykkur á nokkra hluti sem eru mikilvægir:
Föt til skiptanna, sundföt, skjólfatnað, góða skó og íþróttaskó. Nauðsynlegt er að koma með svefnpoka, kodda og dýnu. Snyrtidót, s.s. tannbursta, tannkrem, sjampó, handklæði og fleira því tengt er nauðsynlegt. Munið líka eftir búningum fyrir laugardagskvöldið (þemað er bleikur). Svo verðum við að muna að þegar við erum í svona útilegu er nauðsynlegt að vera jákvæð/ur. Hafa bros á vör, gleði í hjarta og sýna náunga okkar fyllstu virðingu!