Í ár verður skipulagður stærsti MIP
Í ár verður söfnun Landsmóts með breyttu sniði. Þemað er Flóttamenn og fjölmenning og verður fötum safnað fyrir flóttafólk og hælisleitendur á Íslandi, í Jórdaníu, Sýrlandi og Líbanon. Söfnunin mun fara fram heima í hverjum söfnuði þar sem hvert æskulýðsfélag er hvatt til þess að safna 1 – 2 stórum svörtum pokum af fötum. Lögð er áhersla á að fötin séu nýtileg og í góðu ástandi. Framkvæmdin er þessi:
- Æskulýðsfélag safnar 1 – 2 stórum svörtum pokum af fötum.
- Afhending er svona:
– Þeir sem koma frá höfuðborgarsvæðinu skilja pokana eftir í Digraneskirkju í Kópavogi við brottför á mótið.
– Þeir sem koma annars staðar af landinu koma með pokana á mótið og afhenda mótsstjórn þar. - ÆSKÞ afhendir Hjálparstarfi kirkjunnar fötin sem sér um að koma þeim til skila.
Hjálparstarf kirkjunnar tekur þátt neyðaraðstoð Alþjóðlegs hjálparstarf kirkna, ACT Alliance, við fólk sem hefur orðið að flýja heimili sín og er heimilislaust, hjá venslafólki eða í flóttamannabúðum í Sýrlandi, Jórdaníu og Líbanon.
Aðstoðin felst í því að tryggja fólki aðgang að heilsugæslu og útvega fæði, skjól og húsbúnað ásamt því að gera börnum kleift að sækja skóla og veita flóttafólkinu sálrænan stuðning. Þá er móttökusamfélögum hjálpað svo þau geti sem best tekið á móti sífellt fleira flóttafólki.
Á árinu 2016 hefur Hjálparstarfið sent 22,5 milljónir króna til neyðaraðstoðarinnar en árið 2014 var framlag upp á 16,6 milljónir króna sent til þessa brýna mannúðarstarfs og nemur því heildarframlagið 39,2 milljónum króna.