Nú líður að landsmóti og þá er um að gera að fara að huga að fjáröflunarleiðum fyrir æskulýðsfélögin okkar. Margir leiðtogar fórna höndum þegar kemur að þessum lið og finnst þetta oft á tíðum flókið og erfitt. Örvæntið ekki! Hér á eftir munum við fara yfir nokkrar hugmyndir að fjáröflunum sem henta vel fyrir æskulýðsfélög. Það er von okkar að þessar hugmyndir muni hjálpa ykkur og nýtast unglingunum fyrir landsmót. 🙂

Við tökum vel á móti fleiri hugmyndum um fjáraflanir. Endilega sendið okkur hugmyndir á netfangið landsmot@aeskth.is og við bætum ykkar hugmynd við listann.

Styrktarsala

Fjölmörg fyrirtæki bjóða upp á vörur til styrktarsölu. Má þar nefna til dæmis Papco og Olís sem bjóða upp á wc-pappír, hreinlætisvörur, sælgæti, kaffi og margt fleira. Einnig má nefna vefsíðuna www.netsofnun.is sem er frábær þegar kemur að fjáröflunum. Ótal önnur fyrirtæki bjóða upp á styrktarsölu og það er um að gera að kanna þetta vel.

netsofnun

Dósasöfnun

Í mörgum æskulýðsfélögum hefur dósasöfnun gefist vel. Það er þó misjafnt eftir landshlutum hversu vel þetta gengur. Æskulýðsfélagið Meme í Digraneskirkju er með dósasöfnun á hverju ári og ná flestir unglingar að safna á bilinum 3000-5000 á mann á einu kvöldi og jafnvel meira. Framkvæmdin á dósasöfnunni skiptir miklu máli og látum við hana fylgja hér með.

  1. Ákveða þarf dag/kvöld í söfnunina.
  2. Gott getur verið að útbúa blað sem þau geta sýnt í húsunum þar sem fram kemur hvaðan þau eru og fyrir hverju þau eru að safna.
  3. Mjög gott er að hafa 1 bíl sem dregur stóra kerru, helst lokaða, sem getur tekið talsvert magn af dósapokum.
  4. Hafa nóg af svörtum ruslapokum og nokkra einnota hanska.
  5. Skipta götunum niður á unglingana og senda þau svo af stað með poka.
  6. Þegar unglingarnir eru komnir með það marga stóra poka að þau geta ekki borið þá, hringja þau í bílstjórann með kerruna. Bísltjórinn kemur og tekur pokana og unglingarnir halda áfram að safna. Bílstjórinn fer síðan með dósirnar í kirkjuna/safnaðarheimili.
  7. Í kirkjunni/safnaðarheimilinu taka leiðtogarnir á móti pokunum. Dósirnar eru taldar og flokkaðar í gler/plast/ál. Mikilvægt að skrifa allt vel niður. Gengið er frá öllu í svarta lokaða ruslapoka sem síðan er farið með í endurvinnsluna.

Maraþon

Hér er átt við til dæmis Biblíulestrarmaraþon þar sem unglingarnir vaka heila nótt og lesa í Biblíunni. Í tengslum við þetta safna þau áheitum frá einstaklingum og fyrirtækjum á svæðinu þar sem þau búa. Einnig er hægt að fara aðra leið í þessu og hafa Kærleiksmaraþon eins og hefur orðið að venju hjá Æskulýðsfélaginu á Vopnafirði. Látum við hér fylgja með smá útlistingu á því frá Stefáni Má Gunnlaugssyni.

Kærleiksmaraþonið er einfalt í framkvæmd þar sem allir taka þátt og hefur jafnframt mikla boðun og liggur nálægt þeim áherslum sem við viljum hafa í unglingastarfinu. Maraþonið felst í því  að fólk heiti á unglinga að láta gott af sér leiða fyrir náungann og samfélagið. Krakkarnir safna áheitum, svo hefur verið í einn dag opið hús í safnaðarheimilinu þar sem boðið er upp á vöfflur, djús og kaffi, bílaþvott ofl. allt – ókeypis. Vegna þess að allir þekkja alla hér á Vopnafirði hafa þau lika gengið í öll hús og boðið fram aðstoð sína við létt heimilisstörf, en þetta má svosem útfæra á margvíslegan hátt og reynslan hér hefur verið að það er auðvelt að fá foreldrana til aðstoðar í þessu. Sjá má umfjöllun um kærleiksmaraþonið í meðfylgjandi tengli: http://www.mbl.is/frettir/innlent/2011/10/23/kaerleiksmarathon_a_vopnafirdi/