Einu sinni langaði Guð til að vita hve vitrir mennirnir væru orðnir og hvort þeim hefði farið eitthvað fram. Hann sendi tvo vitrustu englana sína til að leggja fyrir þá þessa spurningu: “Hvað er það besta og dýrmætasta sem til er?”
Englarnir áttu að vera eitt ár að ferðast um jörðina. Þeir ferðuðust bæ frá bæ og land úr landi og spurðu ríka og fátæka, unga og gamla. Sumir sögðu að það væri gull, aðrir að það væri svefninn og hvíldin og aðrir moldin. Englarnir þóttust vita að ekkert af þessum svörum væri rétt, því að enginn var fullkomlega glaður eða hamingjusamur, nema helst börnin.
Síðasta kvöld ársins voru englarnir í þann veginn að leggja af stað upp til himna þegar þeir komu auga á lítinn kofa og var það síðasti viðkomustaður þeirra á jörðinni. Þeir gengu inn í kofann og hittu þar fyrir gamlan mann sem spann gullþráð á snældu. Þegar þeir spurðu hvað hann væri að spinna, sagðist hann vera að spinna þráð í hamingju mannanna. “Hvaðan færð þú allt þetta gull?” spurði annar engillinn. “Ég vinn það úr augnablikunum,” svaraði öldungurinn. Englarnir mundu nú eftir aðalerindinu og spurðu hann hvað væri það dýrmætasta sem til væri. Öldungurinn hætti eitt andartak að spinna og leit á englana djúpum og alvarlegum augum og mælti: “Ef þið hittið mennina aftur, þá segið þeim öllum, að augnablikið sé það dýrmætasta sem til er.
Þegar englarnir voru búnir að segja Guði frá öllu sem þeir höfðu séð og heyrt var hann orðinn ákaflega alvarlegur. Hann hafði ekki búist við að mennirnir væru svona ófullkomnir. “Funduð þið þá engan sem var fullkomlega ánægður og hamingjusamur?” spurði Drottinn. “Nei, engan,” svöruðu englarnir, “nema ef ver skyldi gamlan mann sem við hittum rétt áðan”. Svo sögðu þeir honum frá manninum í kofanum sem spann gullþráð á snældu. Þá brosti Guð lítið eitt og sagði: Þennan öldung skal ég gera æðsta kennara mannanna. hann skal kenna þeim að finna gæfuna. hann skal kenna þeim að menntast og vaxa og verða að fullkonum mönnum. Tíminn, augnablikið, er það dýrmætasta sem til er.
AugnablikiðGuðmundur Karl Einarsson2013-04-09T07:53:01+00:00