Erlend samskipti
Æskulýðssamband Þjóðkirkjunnar og
European Fellowship árið árið 2010
Á síðasta ári sendi ÆSKÞ fulltrúa sinn, Þórunni Harðardóttur, í skipulagsnefnd European Fellowship vegna Easter Course námskeiðið sem haldið var 28. mars – 4. apríl 2010. Undirbúningsfundur var haldinn í sumarbúðum EELK í Eistlandi 22. – 24. janúar 2010. Námskeiðið gekk vel og voru þátttakendur og skipuleggjendur alls 33 frá 7 mismunandi aðildarfélögum EF. Þátttakendur voru á aldrinum 17 – 25 ára. Þema námskeiðisins var Humar Respect – Equal dignity. Tók Þórunn að sér að halda fyrirlestur/kynningu á Mannréttindayfirlýsingu Sameinuðu Þjóðanna ásamt því sem hún stýrði þremur verkefnum úr Kompás, bók Evrópuráðsins. Tókst námskeiðið mjög vel og fóru þátttakendur ánægðir heim með nýja reynslu og tækifæri í bakpokanum sínum.
Í ár verður Easter Course námskeiðið haldið í Transylvaníu í Rúmeníu, 16. – 24. apríl nk. í smábænum Algyógy sem er í tveggja og hálfs tíma akstursfjarlægð frá Cluj-Napoca. Í ár eru níu manns í skipulagsnefndinni og fulltrúi ÆSKÞ er aftur Þórunn. Hinir fulltrúarnir koma frá Danmörku, Eistlandi, Írlandi, Skotlandi, Úkraínu og Rúmeníu/ Transylvaníu. Auk þess mun Adric Constantino-Etheredge, training facilitator EF, sjá um að halda utan um skipulags-nefndina. Undirbúningsfundur var haldinn í Transylvaníu helgina 4. – 6. febrúar sl. og gekk hann mjög vel. Búist er við góðum fjölda þátttakenda. Þemað í ár er On the Edge og verður aðaláherslan á minnihlutahópa.
Var Þórunn einnig fulltrúi ÆSKÞ á Aðalfundi European Fellowship sem haldinn var í Tallinn í Eistlandi 8. – 10. maí 2010. Þar var farið yfir nýtt stjórnarfyrirkomulag EF sem samþykkt var og tekið upp á auka-aðalfundi EF í ágúst 2009. Aðildarfélög og félög með aukaaðild komu með tillögur að efni sem EF ætti að einblína á næstu árin. Viðburðir fyrir ungt fólk og meira efni sem hægt væri að nota í félögunum var aðal umræðuefnið. Á aðalfundinum óskaði Þórunn eftir því að Easter Course yrði á Íslandi árið 2012, en eftir mikla umræðu var ákveðið að námskeiðið yrði það árið í Úkraínu og frekar á Íslandi árið 2013. Í staðinn var fallist á að halda aðalfund EF á Íslandi helgina 20. – 22. maí nk. Er þá von á fulltrúum helstu aðildarfélaga EF hingað til lands.
Árið 2010 áttum við einnig fulltrúa á NEXT STEP námskeiðinu sem er einnig á vegum EF auk FIMCAP regnhlífarsamtakanna. Það var haldið í húsakynnum Evrópuráðsins í Strassbourg í Frakklandi vikuna 17. – 23. október 2010. NEXT STEP er námskeið fyrir þá sem hafa reynslu af því að skipuleggja viðburði eins og mót eða námskeið. Sólveig Ragna Jónsdóttir var fulltrúi ÆSKÞ þetta árið. Þema námskeiðsins voru á ensku: Organisational Perspective, intercultural / ecumenical, European Network og Personal Skills. Kom Sólveig Ragna reynslunni ríkari til baka ásamt því að hafa myndað tengsl við æskulýðsfólk víðsvegar að úr heiminum.
Í sumar verða tvær tjaldútilegur á vegum aðildarfélaga EF. Önnur í Danmörku og hin í Finnlandi. Í Danmörku verður útilegan á Jótlandi vikuna 7. – 15. júlí og síðan í Finnlandi 20. – 25. júlí. Aðildarfélögum ÆSKÞ er velkomið að taka þátt í útilegunum. Nánari upplýsingar um útilegurnar eru á heimasíðu EF: www.europeanfellowship.org.
Á heimasíðu EF má finna upplýsingar um þá viðburði sem EF býður upp á. European Fellowship eru einnig með aðdáendasíðu á Facebook þar sem þeir eru duglegir að auglýsa viðburði sína hverju sinni.
Hafnarfirði, 14. febrúar 2011
Þórunn Harðardóttir
meðstjórnandi.