Biskup Íslands vill standa á vörð um æskulýðsmálin í landinu og þar með styðja við starf Æskulýðssambands Þjóðkirkjunnar. Á næstu misserum eru að fara í hönd miklar breytingar í kirkjunni en þar liggur öll þjónusta kirkjunnar til skoðunar. Biskup Íslands boðaði því framkvæmdastjóra og formann ÆSKÞ á sinn fund til að fara yfir stöðu mála.
Farið var yfir fjárhagsstöðu og helstu verkefni á vegum sambandsins, en stærsti viðburðurinn er Landsmót ÆSKÞ sem haldið er á ári hverju. Þar koma saman æskulýðsfélög víðs vegar af öllu landinu. Kórónuveiran hefur þó sett svip sinn á starfið og hefur landsmótið því verið haldið á netinu tvö síðustu skiptin. Einnig fór biskup yfir sín áherslumál, væntingar til sambandsins sem og aukinn sýnileika ÆSKÞ.
Það var niðurstaða fundarins að áframhaldandi samtal á milli kirkjunnar og Æskulýðssambands þjóðkirkjunnar, sem eru grasrótarsamtök, er gríðarlega mikilvægt til að efla æskulýðsstarfið enn frekar og má því búast við enn fleiri fundum í framhaldinu.