Kæru vinir, í ljósi aukinna smita undanfarið hefur verið tekin ákvörðun um að breyta framkvæmd Landsmóts ÆSKÞ 2020 og mun mótið í ár því fara fram á netinu.

Að baki landsmóti ÆSKÞ liggur mikil vinna og skipulagning. í ár lítum við svo á að það sé óábyrgt að hópa saman fjölda unglinga og leiðtoga hvaðanæva af landinu þar sem töluvert hefur verið um smit að undanförnu og þá sérstaklega á höfuðborgarsvæðinu, en þaðan kemur stór hluti þátttakenda. Þó svo að aðstæður geti verið aðrar í lok október þá erum við ennþá að læra að lifa með veirunni og stígum því varlega til jarðar. Ákvörðunin er tekin í samvinnu við almannavarnarnefnd Skagafjarðar og embætti sóttvarnarlæknis.

Til að bregaðst við þessum aðstæðum færum við landsmót því í nýjan búning og bjóðum til spennandi netviðburðar þar sem æskulýðsfélögin geta tekið virkan þátt. Framkvæmdin er enn í vinnslu en margar góðar hugmyndir eru þegar farnar að rúlla og það verður virkilega spennandi að prófa þetta.

Hugmyndin er að framsetning mótsins verði með þeim hætti að æskulýðsfélögin geti skipulagt heilsdagssamveru og jafnvel gistinótt í kirkjunni laugardaginn 31. október, mótið verður sett í gegnum netið og eftir það verður í boði fræðsla, leikir, hópastarf, helgistundir,samtöl og ball. Það er því vel við hæfi í ár að yfirskrift landsmóts sé lifandi landsmót en nú fær það nýja merkingu sem „live“ landsmót. Við ætluðum að fanga samverunni og lifandi samskiptum en höldum þess í stað áfram að æfa okkur í að eiga í heilbrigðum og góðum samskiptum yfir netið.

Við stefnum að landsmóti ÆSKÞ á Sauðárkróki að ári, eða helgina 29. -31. október 2021.

 

Bestu kveðjur,

LANDSMÓTSNEFND ÆSKÞ