Í dag er síðasti skráningardagurinn á Landsmót ÆSKÞ sem mun fara fram dagana 25.-27. október.
Það er mikilvægt fyrir okkur að fá fjöldatölur í tíma til þess að við getum gengið frá samningum við rútufyrirtækin og matarbirgja oþh. Ef þið eruð í vandræðum með að klára skráningar, endilega stofnið hópinn ykkar inná Skrámi og sendið síðan tölvupóst á skraning@aeskth.is og við framlengjum skráningafrestinn fyrir ykkur.
Í dag er líka síðasti dagurinn til að sækja um að vera sjálfboðaliði á mótinu, skráning fer fram hér: Sækja um að gerast sjálfboðaliði
Myndir á mótinu – Samþykki fyrir myndatökum
Þá viljum við líka vekja athygli á nýju samþykki sem við verðum að hafa fyrir myndatökum á mótinu.
Það að leyfa myndatökur er ekki skilyrði fyrir þátttöku, hinsvegar verðum við að hafa þetta leyfi til þess að geta tekið myndir og birt af mótinu. Almenna reglan er auðvitað sú að þið þurfið að hafa slíkt leyfi frá foreldrum til þess að taka myndir í starfinu hjá ykkur. Þetta skjal nýtist til þess. Endilega sendið þetta heim með væntanlegum þátttakendum svo við getum verið viss um hvort og af hverjum má taka myndir á mótinu.
Leiðtogar og sjálfboðaliðar
Við minnum á að 1 leiðtogi þarf að fylgja hverjum 7 þátttakendum og með hverjum hópi skulu fylgja að lágmarki 2 leiðtogar. Biðjum við leiðtoga að virða þessa reglu. Hægt er að hafa samband við framkvæmdarstjóra ef æskulýðsfélag er í vandræðum með að manna leiðtogastöður og verður þá reynt að aðstoða við að finna leiðtoga. Leiðtogar verða að vera orðnir 18 ára þann 25. október 2019 (f.2001).
Margir hafa góða reynslu af því að nýta foreldra sem leiðtoga á mótinu.
Sjálfboðaliðar: Þeir ungleiðtogar sem eru 17 ára (f. 2002) og því ekki með aldur til að starfa sem leiðtogar á mótinu geta sótt um að vera í sjálfboðaliðahóp landsmóts. Einnig geta leiðtogar sem eru eldri en 17 ára sótt um að vera í þessum hópi ef þeir eru ekki að fara með hóp á landsmót. Sótt er um rafrænt á vef ÆSKÞ.
Kröfur um skimun leiðtoga og sjálfboðaliða
ÆSKÞ gerir þá kröfu að allir leiðtogar og sjálfboðaliðar sem koma á landsmót hafi farið í gegnum skimun, þ.e.a.s að búið sé að kanna ákveðin atriði varðandi sakavottorð í samræmi við siðareglur vígðra þjóna og annars starfsfólks þjóðkirkjunnar. Það er á ábyrgð kirkju viðkomandi hóps að slík skimun hafi farið fram.
Hæfileikakeppni ÆSKÞ
Hæfileikakeppnin verður á sýnum stað. Við munum halda okkur við fyrirkomulag síðustu ára og efna til forkeppni. Því þurfa öll atriðin sem keppa eiga í hæfileikakeppninni að skila sér til dómnefndar eigi síðar en 13. október.
Aðeins er leyfilegt að senda eitt atriði frá hverju æskulýðsfélagi í keppnina. Hámarkslengd á atriði sem tekur þátt í keppninni eru ca 3 mínútur.
Engar kröfur eru gerðar um vinnslu, mynd eða hljóðgæði, einungis einfalda upptöku af atriðinu.