Kirkjuþing unga fólksins (KUF) veður haldið um komandi helgi dagana 25. og 26. maí. Þingið verður að þessu sinni tveggja daga þing þar sem mörg mál liggja fyrir og hafa þingfulltrúar kallað eftir því að þingið fái rými og tíma til að vinna málin enn frekar.
Segja má að þingið hafi slitið barnsskónum en þingið í ár er það 14. sem haldið er, en síðan 2008 hefur þingið verið árlegt og því komin heilmikil reynsla á þennan flotta viðburð. Mikil vinna og metnaður liggur að baki þinginu en alls liggja fyrir 12 mál. Hvert prófastdæmi á tvo fulltrúa sem sitja þingið.
Dæmi um mál sem liggja fyrir er tillaga um að Kirkjuþing hið almenna verði pappírslaust fyrir árið 2020 og að ferðalög starfsmanna kirkjunnar verði kolefnisjöfnuð. Einnig er lagt til að Kirkjuþingi hinu almenna verði streymt í beinni útsendingu á netinu á meðan þingið fer fram. Eru þessar tillögur mjög í takt við fyrri mál á KUF sem hefur kallað eftir öflugri umhverfisstefnu kirkjunnar.
Kirkjuþing ungafólksins kallar eftir að biskupsembættið að opni æskulýðsmiðstöð og skorar jafnframt á biskupsembættið að skipa æskulýðsprest. KUF leggur fram ályktun um sérstakt sóknarprestanám og að sóknir skuldbindi sig til þess að nýta fræðslu frá Samtökunum 78.
Þá liggur fyrir ályktun um setu ungs fólks í sóknarnefndum og að hlutdeild ungs fólks í kirkjustarfi og stjórn Þjóðkirkju Íslands verið aukin.
Auk þess fangar KUF þeirri tilkynningu sem að Kristján Björnsson vígslubiskup gaf út á kirkjan.is þann 14. maí 2019 þegar hann var settur biskup, um að kirkjan vilji standa með þolendum ofbeldis og taka alvarlega allar ásakanir um óviðeigandi eða ranga hegðun.
Húsið er opið fyrir gesti og gangandi sem vilja fylgjast með störfum þingsins. Þingi fer fram í Grensáskirkju og hefst kl 10 laugardaginn 25. maí, en málaflutningur kl 13:30 sama dag.