Landsmót ÆSKÞ verður haldið á Selfossi í lok október. Búist er við miklum fjölda unglinga af öllu landinu. Undirbúningur er nú hafinn og hefur landsmótsnefnd meðal annars boðað til hugarflæðisfundar í Neskirkju miðvikudaginn 6. apríl.
Landsmótið 2010
Landsmótið 2010 var það fjölmennasta hingað til. Þangað komu um 700 ungmenni á landsmótið. Þema þess var: Frelsum þrælabörn á Indlandi og unnu unglingarnir ýmis verkefni, seldu bænabönd og fleira. Afraksturinn af þessu frábæra starfi unglinganna var sá að 72 börn á Indlandi fengu lausn undan skuldaánauð og horfa nú fram á bjartara líf, menntun og framtíð.
Að mörgu er að huga þegar farið er í skipulagningu á jafn stóru móti og landsmót ÆSKÞ er og vill ÆSKÞ virkja alla þá frjóu og frábæru huga sem búa í starfinu okkar. Því kallar landsmótsnefndin nú eftir góðum, skemmtilegum og áhugaverðum hugmyndum um alla þá frábæru hluti sem hægt er að gera á landsmóti. Miðvikudaginn 6.apríl nk. verður sérstakur „Hugarflæðis-fundur“ í Neskirkju og hefst hann kl.16:45 og stendur til 18:15.
Fundurinn er opinn og óformlegur svo ekkert mál er að koma seint og henda fram hugmyndum. Þangað eru allir leiðtogar og aðrir velkomnir sem vilja koma hugmyndum og ábendingum á framfæri. Allar hugmyndir verða settar á blað og verður svo unnið áfram með þær. Hver veit nema þín hugmynd verði kveikjan að stórkostlegu hópastarfi á landsmóti? Hugmyndir og ábendingar mega snúast um allt milli himins og jarðar sem tengist landsmótinu. Landsmótsnefndin verður á staðnum og hlakkar til að hitta þig og alla þá sem kíkja við.