Verið búin að blása upp heilan helling af blöðrum, ekki spara til, eða látið fundinn hefjast á því að krakkarnir blása í blöðrur.
Blöðrublak: skiptið hópnum í tvö lið. Liðin sitja á stól í beinni röð og snúa á móti hvort öðru. Ekker bil má vera á milli stóla. Blöðrurnar eru settar í umferð og krakkarnir eiga að reyna að slá blöðrurnar yfir og aftur fyrir hitt liðið. Liðið verða að sitja, það er alveg bannað að lyfta rassinum af stólnum. Ef liðin brjóta þessa reglu ítrekað er einum vísað út af í 20 sekúntur. Leiðtogar standa á bak við hvort lið og telja stigin og sjá til þess að henda blöðrunum aftur í umferð.
Blöðruhandbolti: Skiptið í tvö lið, hvort lið velur sér markmann eða sprengjara. Sprengjarar eru settir á borð í sitt hvorum enda salarins og þar eiga þeir að sitja. Liðin eiga svo að reyna að koma blöðrum yfir til sprengjarans með því að slá þær á milli sín. Liðið fær eitt stig fyrir hverja blöðru sem sprengd er. Það er gaman að setja nokkrar blöðrur í umferð í einu, þá eru allir með.
Blöðrur bundnar við fætur: hafið til blöðrur með bandi í, krakkarnir binda eina blöðru við öklann og markmiðið er að sprengja blöðrurnar hjá hinum með því að stíga á þær en um leið reyna að verja sína blöðru. Ef nóg er til af blöðrum er hægt að leyfa þeim sem fljótlega verða úr að fá nýja. Annars eru menn úr ef blaðran springur.
Blöðruboðhlaup: a)Liðin eiga að hlaupa og sprengja blöðru með því að setjast á hana, ekki má nota hendur eða hvöss tól eða tæki til þess að sprengja blöðruna. b) Liðin blása í blöðru og sleppa og hlaupa svo þangað sem blaðran lendir. Þannig eiga þau að reyna að komast yfir og til baka. c) liðin hlaupa að blöðru sem þau eiga að blása upp þar til hún springur, þá mega þau fara til baka (gætið ykkar á þessu, þetta er kannski ekki besta hugmyndin).