Landsmót ÆSKÞ, Æskulýðssambands þjóðkirkjunnar, var haldið helgina 21. -23. mars síðast liðin. 

Landsmót er árlegur viðburður sem haldinn er fyrir æskulýðsfélög af öllu landinu. Í ár var mótið haldið í Vatnaskógi en alla jafnan flakkar staðsetning á milli landshluta.  

Rúmlgea 150 börn voru skráð og að meðtöldum sjálfboðaliðum, leiðtogum og ungleiðtogum voru þátttakendur á mótinu um 200 talsins.  

“Það var mikill heiður að fá að taka þátt í því að skipuleggja og undirbúa Landsmót ÆSKÞ” segir Eygló Anna Ottesen, landsmótsstjóri. “Það var æðislegt að taka þátt í helginni og fá tækifæri til að kynnast krökkunum, enda var ég sjálf þátttakandi á Landsmóti ÆSKÞ fyrir ekki svo mörgum árum. Það var krefjandi verkefni að skipuleggja og halda utan um að allt myndi ganga vel á svona stórum viðburði. Mótið gekk vonum framar og erum við einstaklega stolt af því – við erum að sama skapi strax orðin spennt fyrir næsta móti.” 

Mótið byggðist upp af fjölbreytti dagskrá, fræðslu, fjöri, helgistundum og balli. 

Biskup Íslands sendi kveðju og setti mótið á föstudagskvöldinu þegar krakkarnir, sem margir lögðu á sig að ferðast landshorna á milli, voru komnir upp í Vatnaskóg.  

Fræðsla mótsins sneri að páskahátíðinni og fóru krakkarnir á milli stöðva þar sem þau fengu fræðslu um skírdag, föstudgainn langa og páskadag. Á hverri stöð var auk fræðslunnar föndur eða iðja þannig að á skírdagsstöðinni þvoðu þau fætur hvers annars, á stöðinni um föstudaginn langa var smíðaður stór kross og öll límdu þau stein á krossinn og á páskadagsstöðinni fengu þau að búa til TikTok sem voru sýnd á loka stundinni á sunnudeginum. 

Hin árlega hæfileikakeppni ÆSKÞ var haldin á laugardeginum þar sem æskulýðsfélögin gátu sent inn atriði til þátttöku. Sigurvegari hæfileikakeppninnar var frábært atriði frá Selfosskirkju þar sem krakkarnir sýndu glæsilegan dans. 

Nýjung á mótinu í ár var svo hönnunarkeppni sem fékk nafnið ÆskuList. Í keppnina gátu æskulýðsfélög komið með eitthvað sem þau höfðu sem hópur unnið að og hannað og nýtt þemalit mótsins þar í. Sigurvegari ÆskuListar var Árbæjarkirkja en þau höfðu hannað stóran kross og skreytt með merkjum íþróttafélags þeirra hverfis, Fylkis, en litur þess er einmitt sá sami og þemalitur Landsmóts, appelsínugulur.  

Á föstudagskvöldið var pottapartý og froðudiskó þar sem DJ Sverrir hélt uppi stuði. Að halda froðudiskó í mars var spennandi þar sem íslenska veðrið tók virkan þátt og byrjaði að snjóa miðjum gleðskapnum – þá byrjaði skemmtilegur ágiskunarleikur: er þetta froða eða snjór? 

Á laugardagskvöldinu var haldið glæsilegt ball í íþróttasalnum þar sem Patrik Atla kom fram og DJ Grétar þeytti skífum. Það var mikið dansað og ennþá meira sungið – enda voru flestir orðnir vel hásir þegar leið á kvöldið.  

Tekin var upp sú hefð sem áður var, að tilkynna hvar Landsmót næsta árs verði haldið á lokastundinni og var því fangað með miklu lófataki og gleði að Landsmót 2026 verður haldið á Hvammstanga.  

Landsmót ÆSKÞ er löngu orðin sá viðburður sem mikil eftirvæntin og spenna er eftir á meðal unglinganna. Á því fá þau dýrmætt tækifæri til að skapa tengsl við önnur ungmenni víðsvegar af landinu ásamt því að rækta sína trú í góðra vina hópi.  

“Við erum kannski ekki alveg hlutlaus í þessum málum” segir Steinunn Anna, gjaldkeri ÆSKÞ, “en að okkar mati er æskulýðsstarf þjóðkirkjunnar einn af hennar allra mikilvægustu liðum og er nauðsynlegt að hlua vel að því og styrkja. Í nútímasamfélagi er erfitt og flókið að vera unglingur og að finna sinn stað í heiminum, þar kemur kirkjan sterk inn með sitt æskulýðsstarf sem eru um leið forvarnarstarf og félagslegt starf sem vinnur alltaf af því að styrkja og efla ungmenni. Kirkjan á að vera leiðandi afl í æskulýðsstarfi og þar skipta viðburðir eins og Landsmót ÆSKÞ miklu máli.”