Kirkjuþing unga fólksins fór fram um helgina. Á þinginu komu saman 20 fulltrúar á aldrinum 14-26 ára frá öllum prófastsdæmum sem ræddu um málefni og framtíð kirkjunnar.
Fyrir þinginu lágu sex mál:
Fyrsta mál á dagskrá var ályktun KUF um að öll myndbirting af börnum verði með öllu óheimil. Í greinargerðinni kemur meðal annars fram að: „þar sem trúmál eru flokkuð sem viðkvæmar persónuupplýsingar er ótækt er að kirkjan taki sér það vald í hendur að birta þessar upplýsingar um börn á sínum vef- og prentmiðlum.
Erfitt er að gera sér grein fyrir varanleika myndbirtinga og hvaða áhrif það mun hafa á lífsleiðinni.“
Annað mál á dagskrá rímar við fyrsta mál en það kallaði eftir því að að Þjóðkirkjan/Biskupsstofa komi upp alhliða myndheimi sem sé aðgengilegur söfnuðum í gegnum efnisveituna til notkunar í öllu auglýsingar- og kynningarefni.
Þriðja mál fjallaði um tímasetningu kirkjuþings unga fólksins, en samkvæmt núverandi starfsreglum skal þingið fara fram að vori og standa yfir í tvo daga. Kirkjuþing unga fólksins lagði til að þingið skyldi haldið árlega á tímabilinu ágúst fram í maí og standi í tvo daga yfir helgi.
Fjórða mál þingsins fjallar um Æskulýðsmiðstöð Þjóðkirkjunnar og lagt er til að hún verði í Grensáskirkju. Í greinargerð segir meðal annars: „Æskulýðsstarf fer fram í mörgum kirkjum á landinu… Það ber þó að nefna að fæst félög hafa sérstaka aðstöðu fyrir starf sitt annað en almenna safnaðarsali. Skrifstofur starfsmanna henta illa í að rúma allt það sem fylgir æskulýðsstarfi. Allskonar búnaður er notaður til að gera æskulýðsstarf kirkjunnar sem skemmtilegast og fjölbreyttast fyrir þátttakendur. Það er algjör óþarfi að hver og einn söfnuður komi sér upp lager af allskonar skemmtidóti til að það rykfalli í skápum milli þess sem það er notað kannski einu sinni á ári.
Einnig vantar kirkjurými þar sem að ungt fólk getur komið og átt samfélag án þess að sérstök dagskrá sé auglýst.“
„Miðstöðin væri miðuð að börnum, unglingum og fjölskyldum þeirra. Í miðstöðinni væri einnig möguleiki að halda hádegisfundi með fræðsluerindi fyrir fólk á tvítugsaldri. Þá væri boðið upp á foreldramorgna fyrir foreldra.“
„Grensáskirkja hentar vel í svoleiðis starfsemi, kirkjan er stór og í henni eru bæði stór og opin svæði og líka mörg smærri herbergi sem henta vel til að skipta niður starfsemi æskulýðsmiðstöðvar. Einnig hefur Grensáskirkja hlotið viðurkenningu frá Sjálfsbjörg fyrir mjög gott aðgengi fyrir fatlaða. “
Fimmta mál þingsins kallar eftir auknu sumarstarfi í söfnuðum landsins. Kirkjuþing unga fólksins skorar á söfnuði landsins að auka framboð á sumarstarfi fyrir börn og unglinga. Í greinargerð kemur eftir farandi fram: „Safnaðarstarf er mikilvægt í kirkjum landsins, það er ekki síður mikilvægt heldur en helgihaldið. Það er því óheppilegt að annað starf en helgihald sé að miklu leiti lagt niður í þetta langan tíma á hverju ári. Eftirspurn eftir sumarnámskeiðum og félagsstarfi fyrir börn á sumrin eykst sífellt og foreldrar ungbarna sem taka fæðingarorlof yfir sumarmánuðina fara alveg á mis við foreldramorgna í kirkjunni. Nú þarf á hverju hausti þarf að endurræsa starfið og ná upp takti en með heilsárs starfi væri hægt að viðhalda betur þeim árangri og þátttöku sem náðst hefur yfir veturinn.“
Sjötta og síðasta mál kirkjuþings unga fólksins var tillage Tillaga um breytingu á 3. gr í starfsreglum um sóknarnefndir nr. 1111/2011 sbr. starfsrgl. nr. 1037/2012, nr. 305/2016 og nr. 1051/2018.
Lagt er til að bætist við lok greinarinnar:
□ Kjósa skal fulltrúa fræðslu- og æskulýðsmála og varamann hans úr hópi sóknarnefndar til fjögurra ára.
Í greinar gerð kemur meðal annars fram: „Mun sá fulltrúi vera tengiliður sóknarnefndar við æskulýðsfulltrúa og/eða æskulýðsstarfsfólk safnaðarins, ÆSKÞ og fleiri samtökum sem tengjast æskulýðsmálum í söfnuðinum eða sveitarfélaginu.“
Var það einróma álit þeirra sem komu að þinginu að það hefði verið vel heppnað og umræður verið áhugaverðar og vel heppnaðar. Þátttakendur voru virkir í nefndarstörfum og ljóst að framtíð kirkjunnar er í góðum höndum.