*Uppfært 23.03.20
Það er ljóst að núverand aðstæður eru stór áskorun fyrir alla sem starfa með fólki, við sem störfum í kirkjunni höfum köllun til að vinna með fólki og finnum áræðanlega sterklega fyrir henni núna þegar óvissuástand ríkir í þjóðfélaginu.
Samkomubannið á við um æskulýðsstarf eins og annað félagsstarf. Við horfum til þeirrar stefnu sem ÍTR og íþróttahreyfingin tekur í þessum málum. Á miðnætti munu hertar reglur taka gildi sem leggja bann við samkomum 20 manns eða fleiri. Þá er ítrekað að halda skuli 2 metra fjarlægð milli einstaklinga.
Við beinum því eindregið til allra sem vinna með börnum og unglingum að hlé verði gert á æskulýðsstarfi sem felur í sér blöndun hópa og árganga, nálægð við aðra og snertingu meðan á samkomubanni stendur.
Ef hægt er að koma því við er spurning hvort hafa eigi opið hús á fundartímum eða á öðrum tíma dagsins svo þau börn og unglingar sem finna til vanmáttar, leiða, hræðslu eða einmanaleika geti kíkt við í spjall. Þá þyrfti að setja aðstöðuna upp þannig að hægt sé að halda réttri fjarlægð en á sama tíma getum við verið til staðar fyrir okkar hóp.
Hvert æskulýðsfélag verður að taka stöðuna og ákvörðun út frá sínum hóp, aðstöðu og ástandi á hverjum stað. Hugmyndir af úrlausnum á æskulýðsstarfi og fréttir af síku á þessum tímum eru vel þegnar.
Þá minnum við á handþvott, almennt hreinlæti og tillitsemi á meðan þetta ástand varir.