Janúrnámskeið/Árshátíð ÆSKÞ fór fram um helgina. Gist var á hótel B59 í Borgarnesi þar sem aðstaða var öll til fyrirmyndar og vel tekið á móti okkur. Það var góð tilbreyting fyrir leiðtogana sem mættu að sofa í uppábúnum rúmum en oftar en ekki þegar leiðtogar koma saman er sofið á dýnum í skólastofum með fullt af unglingum og þrátt fyrir að það sé skemmtilegt var þetta líka alveg hreint ágætt.
Á föstudagskvöld var farið í heimsókn í Borgarnesskirkju og fengum við afbragðs góðan fyrirlestur um sögu kirkjunnar og arkitektúr. Síðan var haldið til baka á hótelið í kvöldmat og skemmtun, þar sem leiðtogarnir sönnuðu enn og aftur hvílík hæfileikabúnt þeir eru.
Á laugardag byrjaði formleg dagskrá á kynningu og umræðum um Kirkjuþing unga fólksins sem er sívaxandi viðburður. Það var áhugavert að heyra í núverandi og fyrrverandi þingmönnum ræða þingið og þá þróun sem við sjáum fyrir okkur.
Síðan kom Sölvi Tryggvason sem hélt fyrirlestur um heilsu og hugarfar og hvernig við getum vaxið sem einstaklingar bæði í einkalífi og starfi. Mikilvægi þess að hlúa að sjálfum okkur er ótvírætt og ljóst að það eflir okkur í öllu sem við gerum. Jákvæði hugsun og þor til að stíga út fyrir þægindaramman var rauður þráður í fyrirlestrinum. Þá fjallaði hann einnig um þakklætið og bænina og hve mikilvægt það er að eiga í góðum félagslegum samskiptum en það var einmitt eitt af markmiðum helgarinnar og ég er nokkuð vissum að það hafi tekist.
Dagskránni lauk síðan á hugflæðifundi um starf ÆSKÞ þar sem þátttakendur gátu komið með hugmyndir og rætt framtíð starfs ÆSKÞ. Þetta kom mjög vel út og verður spennandi fyrir nýja stjórn að fara yfir niðurstöðurnar og vinna áfram með þær.
Kæru þátttakendur á Janúarnámskeiði ÆSKÞ, takk fyrir að koma! Það var virkilega gaman að vera með ykkur og ég hlakka til næst!