Dagama 24. – 31. mars sl. var evrópska námskeiðið Easter Course haldið hér á Íslandi. Um var að ræða mannréttindanámskeið þar sem fólk á aldinum 16-25 ára frá tíu Evrópulöndum kom saman og fræddist um mannréttindi. Námskeiðið var á vegum European Fellowship of Christian Youth en í ár var það í höndum ÆSKÞ að stýra því.
Námskeiðið, sem fer fram árlega sömu vikuna, gekk í ár út á að nálgast málefni kynþáttafordóma- og haturs út frá ýmsum hliðum. Fræðst var m.a. um kynþáttafordóma, innflytjendur, staðalímyndir og lausnaleit. Auk þess var rætt um margvíslegar hliðar fátæktar í ríku landi. Yfirskrift námskeiðsins var í ár Hand in hand – take a stand! en þátttakendur sýndu meðal annars vilja sinn til að efla samheldni borgaranna með því að hóa saman ungmennum af fjölbreyttum uppruna í Efra-Breiðholtinu og fara með þeim í leiki sem reyndu á samvinnu og hópefli. Þökkum við Fella- og Hólakirkju sérstaklega vel fyrir að hafa tekið jafn vel á móti okkur og gert var.
Toshiki Thoma hélt fyrir þátttakendur góðan fyrirlestur sem gekk út á sýna þátttakendum hvernig viðhorf Íslendinga er til innflytjenda ásamt góðum staðreyndum um innflytjendur á Íslandi. Færum við honum einnig sérstakar þakkir fyrir sitt innlegg í námskeiðið. Að öðru leyti sá skipulagsnefnd Easter Course um alla fræðslu námskeiðsins.
Að þessu sinni var námskeiðið haldið í Skátaheimili Hraunbúa í Hafnarfirði en auk þess teygði námskeiðið sig til Víðistaðakirkju þar sem kvöldstundir voru haldnar, Kaldársels þar sem farið var í páskaeggjaleit í hellunum og hrauninu, Miðborgar Reykjavíkur þar sem þátttakendur tóku þátt í stórum ratleik sem leiddi þá milli nokkurra áhugaverðra kennileita Reykjavíkurborgar.
Undir lok vikunnar tóku þátttakendur þátt í að skipuleggja Vaktu með Kristi, vökunótt í Neskirkju þar sem páskavikunnar var minnst. Tókst sá viðburðum með eindæmum vel og voru allir þátttakendur námskeiðsins vel virkir í að stýra áhugaverðum og fjölbreyttum viðburðum alla nóttina. Easter Vision, hæfileikakeppni Easter Course var haldin miðvikudagskvöldið 27. mars. Þar slógu löndin hvert á fætur öðru í gegn með miklum tilþrifum í formi söngva, dansatriða, örleikrita eða uppistands. Hápunktur vikunnar var þó án efa þegar hin einu og sönnu norðurljós ákváðu að sýna sig með pompi og prakt að kvöldi föstudagsins langa, þann 29. mars. Fagnaðarlátunum það kvöldið ætlaði aldrei að ljúka.
Námskeiðið gekk í heildina afar vel og fóru sérstaklega ánægðir en þreyttir þátttakendur aftur heim til sín að því loknu.
Færum við eftirtöldum aðilum sérstakar þakkir fyrir dygga aðstoð í formi veglegra styrkja í formi matar, tilboða, námskeiðsgagna eða húsnæðis vegna námskeiðsins: Esja kjötvinnsla ehf., IKEA, Mjólkursamsalan ehf., Marko Merki, Vodafone, Ingi rútuferðir, Hafnarfjörður Guesthouse, Okkar bakarí, Bónus, Víðistaðakirkja og Kjalarnesprófastdæmi.