Á fundi okkar með hjálparstarfi kirkjunnar í dag fengum við þær gleðifréttir að gestir frá Malaví munu vera með okkur á landsmóti. Munu þau vera með okkur alla helgina, taka þátt í dagskrá, fræðslu og hópastarfi svo eitthvað sé nefnt. Gestirnir heita Innocent og Donai og mun Innocent meðal annars sjá um spennandi tónlistarhóp þar sem hann mun kenna söngva og tónlist frá heimalandinu. Koma þeirra hingað til lands er í tengslum við fermingarfræðsluna svo að mörg fermingarbörn munu einnig fá að kynnast þeim í vetur. Hlökkum við mikið til að fá að kynnast þessu frábæra fólki. Undirbúningur er annars í góðum farvegi. Undirbúningsferð nefndarinnar verður farin í næstu viku. Nýtt myndband mun líta dagsins ljós á fimmtudaginn og þá er vinna einnig hafin við gerð veggspjalds í samstarfi við Hjálparstarf kirkjunnar sem fer í prentun um næstu mánaðamót og verður í kjöfarið sent á öll æskulýðsfélög landsins. Við viljum enn og aftur minna á Facebook síðu mótsins þar sem allar nýjustu fréttirnar koma inn ásamt myndböndum og öðru skemmtilegu efni.
Nú styttist í að æskulýðsfélög hittist í fyrsta skipti eftir sumarfrí. Við óskum ykkur góðs gengis og hlökkum til að þess að færa ykkur fleiri spennandi fréttir af landsmótinu.