ÆSKÞ, ÆSKR, ÆNK og Biskupsstofa útskrifa 19 úr farskóla leiðtogaefna og 6 úr grunnnámi leiðtoga
28. mars útskrifuðust 19 ungmenni úr farskóla leiðtogaefna kirkjunnar og 6 ungmenni af grunnnámskeiði. Var það lokapunkturinn á farsælu starfi á Reykjavíkursvæðinu og Selfossi í vetur. Útskriftin fór fram í Digraneskirkju og buðu nemendur fjölskyldum sínum og leiðtogum til kvöldmessu. Nemendur léku á hljóðfæri, sýndu teiknimynd sem þau gerðu sjálf, fluttu leikrit og bænir og sögðu frá námi sínu. Boðið var upp á kaffi og kræsingar að messu lokinni, í Pálínuboði í safnaðarheimilinu.
Eykur sjálfboðið starf og eflir sjálfsmat
Hefð er komin á starfsemi farskóla leiðtogaefna á höfuðborgarsvæðinu. Farskólinn hefur í gegnum tíðina bæði gegnt því hlutverki að stuðla að auknu sjálfboðastarfi ungs fólks í kirkjunum og að efla sjálfstraust og samkennd unglinganna sem taka þátt. Þar býr kirkjan að miklum mannauði. Nemendur farskólans eru unglingar úr 9., 10. bekk og 1. bekk í framhaldsskóla sem starfa í kirkjustarfi. Flest eru aðstoðarleiðtogar í sínum söfnuði. Nemendur á grunnnámskeiðinu eru ungt fólk í framhaldsskólum og eldra.