„Ég er komin til að hjálpa börnunum í Japan sem hafa misst foreldra sína og þurfa hjálp,“ segir Edda Björg sem erfrá Vopnafirði og vinkona hennar bætir við: „Við hjálpum til að láta gott af okkur leiða … til að fá bros.“
Það er mikilvægt fyrir unglingana að hjálpa fólki í neyð
Toshiki Toma er prestur innflytjenda. Hann tók þátt í dagskrá í Krónunni í miðbæ Selfoss ásamt þremur samlöndum sínum. „Krakkarnir eru með bauk og biðja um samskot. Á meðan bjóðum við fólki upp á að fá nafnið sitt eða uppáhaldsorð skrifað á japönsku og upp á origami,“ segir Toshiki.
Hann bætir við: „Mér finnst þetta þýða rosalega mikið, ekki bara fjáröflunin, heldur er mikilvægt fyrir unglingana að gera eitthvað fyrir fólk í neyð. Ég óska þess að þetta verði ekki bara að færa peninga til þeirra í Japan heldur tækifæri til að skapa samskipti milli unglinga á Íslandi og barna í Japan. Það skiptir miklu máli,“ segir Toshiki.
Í kvöld verður verður hæfileikakeppni æskulýðsfélaganna og ball með Stuðlabandinu. Landsmótinu lýkur á morgun með messu í Selfosskirkju. Þar þjóna sr. Óskar Hafsteinn Óskarsson og sr. Ninna Sif Svavarsdóttir. Sr. Óskar Hafsteinn prédikar og hljómsveitin Tilviljun? leikur og leiðir sönginn í messunni. Messunni lýkur með því að hver þátttakandi á landsmótinu fær fararblessun áður en þau halda til síns heima.